Færsluflokkur: Bloggar

Konur, hátæknin, nýsköpunin, álið, lífsviðurværið og framtíðin

ÉG ER 27 ára íslensk kona, borin og barnfæddur Hafnfirðingur og hef síðustu ár lagt stund á mastersnám í raforkuverkfræði í stórum háskóla erlendis og stefni á doktorsnám í raforkuverkfræði með haustinu. Ég er gift, með eitt barn, annað á leiðinni í sumar og við eigum fallega íbúð í Hafnarfirði með útsýni yfir Bláfjallahringinn, Keili, hluta af Reykjanesi, yndislegt hraunið, sjóinn og Straumsvíkina. Ég hef mínar hugsjónir og framtíðarþrár. Þær tengjast að sjálfsögðu fyrst og fremst fjölskyldu minni, vinum og nánasta umhverfi og að sjálfsögðu velsæld og framgangi lands míns og þjóðar.

Ég hef lagt stund á flókið og nokkuð erfitt tækninám, sem margir undra sig á að konur tileinki sér. En sem betur fer, nú þegar við erum komin áleiðis inn í 21. öldina, er ég einungis ein af mörgum ungum íslenskum konum sem leggja stund á þessi fræði út um allan heim. Háskólanámið gerir mig frekar sérhæfða en vonandi ágætlega undirbúna til að starfa við það sem í senn er kallað hátækni, nýsköpun og þróun. Að sjálfsögðu get ég mjög vel hugsað mér að flytja aftur heim til Íslands og að því stefni ég en frumskilyrði fyrir því er að áhugaverð, traust og örugg framtíðarstörf standi okkur og okkar menntun til boða. Öflug og traust hátækni- og iðnfyrirtæki, þar með talin álver, raforkufyrirtæki og ýmiss konar framleiðslufyrirtæki eru mjög áhugaverðir vinnustaðir fyrir okkar menntun.

Ég hef unnið í ISAL, bæði sem aðstoðarmaður almennra iðnaðarmanna og sem B.Sc. verkfræðingur. Þessi störf eru unnin með notkun flókinnar, háþróaðrar tækni og sjálfvirkni, sem krefst verulegrar þekkingar og kunnáttu á flóknum verkferlum. Þar að auki eru störf í álveri ekki sérstaklega ætluð einum samfélagshópi frekar en öðrum. Starfsemi á slíkum vinnustað krefst þvert á móti menntunar, hæfni og þekkingar sem nær yfir svo til allt litróf kvenna og karla í þjóðfélaginu. Þann tíma sem ég vann í álverinu voru sumarstörf sem verkamaður í kerskála, steypuskála og á fleiri stöðum einstaklega vinsæl meðal ungra stelpna og stráka. Þau störf eru vel borguð og hafa ýmsa þá fjölbreytni til að bera sem önnur almenn framleiðslustörf í iðnfyrirtækjum á Íslandi bjóða ekki upp á.

Hvernig telur fólk, sem ekki þekkir til, að starfsemi í álveri fari fram? Heldur fólk að það þurfi ekki hátækni eða nýsköpun í öllu því flókna ferli sem fer fram þegar framleitt er ál með rafgreiningu úr hráefnum á borð við hvítt duft sem kallast súrál? Þeir sem halda það, ættu kannski að kynna sér örlítið betur bæði efnafræðilegt og tæknifræðilegt ferlið, áður en komið er fram með slíkar staðhæfingar.

Varðandi nýsköpun og hátækni í iðnaði á borð við álver þá hef ég sjálf nýlega lokið við greinarskrif á ensku varðandi nýja og mjög merkilega tækni sem verður í sumar birt í verkfræðiriti á vegum "the Institute of Electrical and Electronics Engineers (IEEE)" og á mjög mikið erindi inn á borð iðnaðarfyrirtækja á borð við álver auk annarra háspennunotenda og raforkufyrirtækja. Þó verð ég að segja að þetta er einungis eitt af þúsundum dæma þess hversu miklir möguleikar eru á nýsköpun og hátækni hjá álfyrirtækjum dagsins í dag.

Að auki þekki ég sjálf töluvert til í háskólum erlendis og til að mynda er ein deild í mínum háskóla sem vinnur markvisst að því að finna leiðir til að hægt sé að nýta ál í stað járns í allar tegundir mótora og fleiri véla sem t.d. eru undir vélarhlífum bíla, í hrærivélum, ísskápum, hárþurrkum, rafmagnsrakvélum, rafknúnum tannburstum og í tækjum og vélum sem meðal annars fiskiðnaður og t.d. fyrirtæki á borð við Össur og Actavis nota við sína framleiðslu daglega. Svo ekki sé minnst á bifreiða- og flugvélaframleiðsluna í heiminum svo fátt eitt sé nefnt.

Mér skilst að meirihluti kvenna sé á móti stækkun álversins í Straumsvík. Því hvorki vil ég né get trúað. Sagt er að konur fari með og ráðstafi allt að 80% af ráðstöfunartekjum hvers heimilis á Íslandi. Við konur erum að mínu mati mjög ábyrgar í fjármálum fjölskyldunnar. Við gerum okkur því sérstaklega vel grein fyrir því að traustar og öruggar atvinnutekjur hverrar fjölskyldu til langrar framtíðar, verða að vera fyrir hendi svo að við getum framfleytt okkur og fjölskyldum okkar á mannsæmandi hátt. Þess vegna tökum við konur engan þátt í því að fara gáleysislega með fjöregg hverrar fjölskyldu, það er atvinnutekjurnar. Við konur tökum því engan þátt í því að gera atvinnutekjur fjölda fjölskyldna að leiksoppi með því að leggja stein í götu afkomu nokkur þúsunda Íslendinga, þar af þúsunda Hafnfirðinga, með því að hafna stækkun álversins í Straumsvík. Við viljum örugg og trygg störf til frambúðar.

Hafnfirðingar, hugsum til framtíðar, verndum störfin og fjölgum þeim í okkar fallega bæ, þá vegnar okkur vel. Virkjum hugann og verndum náttúruna, með því að segja JÁ 31.mars.

Höfundur er 27 ára Hafnfirðingur og mastersnemi í raforkuverkfræði.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband